Sumarfrí... og fleira.

Uppþvottavélin malar, þurrkarinn hefur þagnað, rigningardroparnir falla niður af þakinu og í fjarska sé ég þokuna liðast um fjöllin - friður og ró. Það er komið langþráð sumarfrí, eða svona hér um bil, það er alla vega hafin sumarlokun í leikskólanum. Það hefur verið svo ótrúlega mikið að gera undanfarna mánuði að ég veit eiginlega ekki hvar ég ætti að byrja... en einu verð ég nú að segja frá!

Ég lauk meistararitgerðinni í vor og brautskráðist frá Háskólanum á Akureyri með M.Ed. og það með fyrstu einkunn (voða stolt af því). Ég er alveg ótrúlega ánægð með að hafa lokið þessu, mér finnst stærsti sigurinn vera sá að hafa ekki gefist upp! Ég kláraði og má vera stolt með afraksturinn Smile Ég er samt ekki alveg búin að átta mig á að ég er búin með þetta; að þurfa ekki að setjast niður á kvöldin og á helgum við að skrifa og pæla. Hef í rauninni ekki haft tíma til að átta mig á því. Í maí tók ég við stöðu skólastjóra í leikskóla hér á Dalvík og því hefur í raun verið alveg fyllilega nóg að gera! 

Annað sem mig langar að segja frá er að ég fór á sumarnámskeið/ráðstefnu á vegum NLS í Danmörku nú um daginn. Yfirskrift ráðstefnunnar var UTBILDNING OCH PROFESSION I EN FÖRÄNDERLIG TID og þar var t.a.m. verið að velta fyrir sér framtíðinni; einstaklingum framtíðarinnar, menntun framtíðarinnar, hvernig við viljum að menntun framtíðarinn verði o.s.frv. Við hlustuðum t.a.m. á framtíðar-rannsakandann Anne-Marie Dahl. Hún velti upp ýmsum spurningum varðandi framtíðina í ljósi sögunnar. Eins og að fyrr á tímum þurftum við á verkviti eða líkamlegum styrki á að halda, undanfarin ár eða áratugi hefur hugvitið verið brýnt fyrir vinnumarkaðinn, en hvað ætli framtíðin þurfi á að halda? Anne-Marie velti því fram hvort það geti verið 'tilfinningasviðið'. E.t.v. er rétta orðið 'brjóstvit' en ég er samt ekki alveg viss um það. Að við séum á leið  frá þekkingarsamfélaginu til tilfinningarsamfélagsins -  Fra informations til følelsessamfund. Hún velti því einnig fram hvort pýramídi Maslows muni snúast við í framtíðinni... Þeir sem vilja kíkja á glærur frá henni þá er þær að finna hér. Einnig hlustuðum við á Anders Rusk sem er formaður finnsku kennarasamtakanna (svona eins og Eiríkur er hjá KÍ). Hann fjallaði um 'finnska undrið', kosti þess og galla. Eins og finnskir kennarar njóta mikillar virðingar í finnsku samfélagi, viðhorf til þeirra er sambærilegt við viðhorf til lækna og lögfræðinga. Hann talaði um að það væri mikill agi í finnskum skólum, að kennarinn réði í skólastofunni, en hann minntist einnig á að finnskum nemendum líður ekki vel og að mikil vöntun verði á skólastjórnendum á komandi árum í finnskum skólum. Og ekki er allt gott við það að skora hátt í PISA, þá reynist erfitt að fá meiri peninga inn í skólakerfið; 'af hverju ættuð þið að þurfa meira fé, það gengur jú svo vel!'. Og finnskir kennarar þurfa meistaragráðu til að kenna, en ekki allir kennarar. Finnskir leikskólakennarar sitja eftir öðrum kennurum hvað menntun varðar og njóta heldur ekki sömu virðingar í samfélaginu. 

Nú er uppþvottavélin þöggnuð, ekki sést lengur í fjöllin vegna þoku og ég sé að önnur kisan mín hún Tuðra er vel haldin, án þess þó að klára matinn sinn sem henni er gefinn hér heima - spurning hvernig smáfuglunum líður....

  Kv. Dagbjört
 


 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnst þetta merkilegar pælingar hjá henni Anne-Marie, í raun ekki ósvipaðar þeim sem ég er að velta fyrir mér þessa dagana! Ég mun nýta mér síðuna hennar og kannski reyna að komast yfir efni frá henni

Til hamingju með allt það flotta sem er að gerast í lífinu þínu

Svava Björg Mörk (IP-tala skráð) 13.7.2008 kl. 20:28

2 Smámynd: Dagbjört Ásgeirsdóttir

Já, það er gaman að pæla í þessu. Mikið talað um þessa svo kölluðu 'ég-kynslóð' sem er að koma fram á vinnumarkaðinn í dag; fólk sem hefur ávallt fengið öll tækifæri og sem hefur verið sagt í uppvextinum að þau séu best í því sem þau taka sér fyrir hendur og að allir vegir séu þeim færir, fólk sem lifir út frá því sem er gott fyrir það sjálft... En svo er spurning hvort það sé alslæmt, kannski erum við að fá fram mjög skapandi einstaklinga - kannski er það hið jákvæða.

En takk fyrir innlitið mín kæra  

        kv.
 

Dagbjört Ásgeirsdóttir, 14.7.2008 kl. 21:38

3 Smámynd: Erla Stefanía Magnúsdóttir

Sæl elsku Dagbjört mín og innilegar hamingju óskir með nýju stöðuna master og allt!

 Þú ert algjör snilli er að "glíma" svo  sannarlega væri gaman að heyra frá þér knús frá Köben erla perla

Erla Stefanía Magnúsdóttir, 1.8.2008 kl. 22:08

4 Smámynd: Dagbjört Ásgeirsdóttir

Mikið er gaman að heyra frá þér mín kæra Erla Stefanía! Ég saknaði þín ósköp mikið á NLS námskeiðinu ;)

Saknaðar kveðjur, 

Dagbjört Ásgeirsdóttir, 5.8.2008 kl. 21:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband