Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Gerðhamrar

IMG_3504Í byrjun ágúst var ég stödd á Ísafirði vegna andláts afa míns og skrapp eitt kvöldið vestur yfir heiðar í þann fagra fjörð sem nefnist Dýrafjörður. Það var yndislegt veður þetta kvöld og sjaldan hefur mér fundist vera eins fallegt að keyra niður Gemlufallsheiðina og sjá ofan í fjörðinn. En e.t.v. fannst mér fjörðurinn svona fallegur vegna þess hve langt var um liðið frá síðustu ferð minni þangað og svo tilefni ferðarinnar. Við keyrðum út að Gerðhömrum, þeim stað sem ég á mínar bestu minningar frá og fórum upp í hlíðina þar sem ég tíndi lyng og klippti trjágreinar til að láta setja í kistuskreytinguna, kransa ásamt því sem lítill vöndur var settur í sjálfa kistuna.

 

Skoðið endilega myndirnar, vonandi sjáið þið fegurðina, ég er sennilega ekki dómbær þar sem mér finnst allt fallegt og gott við Gerðhamra... nema kannski það að þeir eru ekki lengur í eigu fjölskyldunnar....

kv. Dagbjört 


Fjölskyldur

Það hefur verið ótrúlega mikið að gera í sumar hjá mér. Tíminn hefur farið í allt þetta 'hitt' sem ég á í raun ekki að vera að gera. S.s. ekki í ritgerðarsmíð! En stundum er það svo að hlutir gerast í kringum mann sem eru bæði mikilvægir og nauðsynlegir og fara því í forgang og fylla tíma manns. En nú er ritgerðin mín, sem bæði er mikilvæg og nauðsynleg, farin hreint og beint að 'öskra á mig', öll viðvörunar ljós eru farin að blikka og nú þarf hún að vera í algerum forgangi. En þá er aðeins eitt vandamál ... sumarfríið er á enda......... Þessar fjórar dýrmætu vikur sem áttu að nýtast aðeins í eitt verkefni og ekkert annað eru á enda.  Ekki misskilja mig og halda að ég sé að kvarta, ef þessar vikur myndu endurtaka sig þá myndi ég litlu breyta í forgangsröðinni. Fjölskyldan gengur fyrir og þannig á það að vera. Það að eiga fjölskyldu er eitthvað sem er dýrmætt, maður finnur það best þegar maður á bágt og erfitt. En í fjölskyldu-pólítíkin virkar á tvo vegu (allavega). Maður tekur við OG gefur einnig Smile Og þannig á það að vera. 

Bestu kveðjur úr góða veðrinu á Dalvík, 


Equestrian Martial Arts

SverðabardagiHver myndi ekki vilja klæða sig upp í alvöru brynju, setja hjálm á höfuð og þeysast um á hestbaki með boga, sverð eða spjót og berjast líkt og riddar gerðu forðum daga?! Sennilega draumur allra drengja og já, stúlkna líka . Og ekki væri það leiðinlegt fyrir okkur fullorðna fólkið heldur. Við gætum látið sem við felldum mann og annan, gamla kærasta eða kærustur og leiðinlega nágranna.  Ég væri sko alveg til í það! Örugglega heilmikið 'kick' að fá út úr því    Whistling

Ég hef sem sé verið dugleg að fara á hestbak undanfarið. Frábær hreyfing og alveg ótrúlegt hve marga vöðva maður uppgötvar sem eru annars ónotaðir. Fyrir utan frábæra reiðskjóta hef ég haft góðan félagsskap. Chris Kovach hefur riðið út með mér undanfarnar tvær vikur, en hann er kanadískur hestamaður sem kennir einmitt reiðmennsku-bardagalist sem hann kallar Equestrian Martial Arts. Á myndinni hér að ofan má sjá Chris heima í Kanada við æfingar með sverð. Það er gaman að skoða heimasíðuna hans, en þar má sjá fleiri myndir og fræðast um hvað liggur að baki. 

Á morgun er svo fyrirhugað að ríða upp á Böggvistaðardal hér fyrir ofan Dalvík. Aldrei að vita hvort ég læri ekki einhver nytsamleg brögð til að klekja á hugsanlegum andstæðingum.   Cool

Dagbjört 


Zinc-dropar, rítalín og ADHD

'Þetta hefur ekkert verið rannsakað, ég veit bara að þetta virkar'. Sagði læknirinn við mig þegar ég sat hálf dofin í stólnum inni á læknastofunni að ræða hegðun sonar míns, rítalín og svefnleysi. Ég horfði einbeitt á hann og hugsaði margoft með sjálfri mér: 'Dagbjört, þú ert ekki hjá grasalækni eða hómópata, þú ert hjá heimilislækninum, á heilsugæslunni!' (Ég vil taka fram að ég ber mikla virðingu bæði fyrir grasalæknum og hómópötum).

'Þú gefur honum bara fimm dropa út í ávaxtasafa á hverjum degi sem verður til þess að hann getur hætt á rítalíninu eftir einhverja daga eða vikur'. Ég ætlaði nú ekki alveg að trúa því sem ég heyrði, jánkaði bara og hugsaði með mér að ég hefði nú engu að tapa - allt væri betra en núverandi ástand.

'Já og takt þú bara líka dropana, þeir hressa þig bara við því þú ert ekkert ofvirk', bætti læknirinn við. Og ég átti að taka 10 dropa út í ávaxtasafa. Hmm, enn þurfti ég að minna mig á hvar ég væri stödd.

Á heimili mínu ríkti stríðsástand. Sonur minn (sem er með greininguna ADHD + mótþróaþrjóskuröskun) hafði fengið stærri skammt af Rítalín-Uno töflunum þar sem hann hafði jú stækkað ansi mikið þessi tvö ár sem hann hafði verið á þeim. Lyfin höfðu virkað mjög vel, hegðunin hafði batnað, einbeitingin betri heima og í skóla, dagleg tilvera fjölskyldunnar hafði komist í eðlilegt horf. En þegar skammturinn var aukinn gat drengurinn ekki sofið - aukaverkanir. Og eftir nokkra mánuði með alltof litlum svefni var ástandið orðið verulega alvarlegt.

Ég gerði eins og læknirinn sagði, hafði jú engu að tapa, var aftur komin út í horn. U.þ.b. viku eftir að ég byrjaði að gefa drengnum Zinc-dropana var Rítalín-Uno skammturinn minnkaður um 1/3. Um viku eftir það alveg hætt og hann hefur ekki byrjað aftur á þeim þegar um tveir mánuðir eru liðnir.

Drengurinn er glaðari, félagslega virkari, sefur mun betur og lengur, hefur meiri matarlyst og hann virðist geta einbeitt sér í skólanum. Sem sé, hegðunin er ekki eins og fyrir Rítalín-Uno eða þegar hann einhverra hluta vegna ekki hafði tekið lyfin sín. Hún er mun betri og einnig betri heldur en með Rítalíni-Uno.

Ég er alls ekki að tala á móti Rítalíni, þau lyf hafa hjálpað drengnum mikið, en þau voru einfaldlega ekki að virka lengur á jákvæðan hátt. Og þó það hljómi ótrúlega, þá hafa Zinc-droparnir einhver þau áhrif sem leiða til betri hegðunar og betri líðan. Hvað þetta fæðubótarefni gerir gat læknirinn ekki útskýrt fyrir mér og hvað þá ég. Eina sem ég get sagt er það sama og hann: 'Ég veit bara að þetta virkar'.

 Dagbjört


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband