Zinc-dropar, rítalín og ADHD

'Þetta hefur ekkert verið rannsakað, ég veit bara að þetta virkar'. Sagði læknirinn við mig þegar ég sat hálf dofin í stólnum inni á læknastofunni að ræða hegðun sonar míns, rítalín og svefnleysi. Ég horfði einbeitt á hann og hugsaði margoft með sjálfri mér: 'Dagbjört, þú ert ekki hjá grasalækni eða hómópata, þú ert hjá heimilislækninum, á heilsugæslunni!' (Ég vil taka fram að ég ber mikla virðingu bæði fyrir grasalæknum og hómópötum).

'Þú gefur honum bara fimm dropa út í ávaxtasafa á hverjum degi sem verður til þess að hann getur hætt á rítalíninu eftir einhverja daga eða vikur'. Ég ætlaði nú ekki alveg að trúa því sem ég heyrði, jánkaði bara og hugsaði með mér að ég hefði nú engu að tapa - allt væri betra en núverandi ástand.

'Já og takt þú bara líka dropana, þeir hressa þig bara við því þú ert ekkert ofvirk', bætti læknirinn við. Og ég átti að taka 10 dropa út í ávaxtasafa. Hmm, enn þurfti ég að minna mig á hvar ég væri stödd.

Á heimili mínu ríkti stríðsástand. Sonur minn (sem er með greininguna ADHD + mótþróaþrjóskuröskun) hafði fengið stærri skammt af Rítalín-Uno töflunum þar sem hann hafði jú stækkað ansi mikið þessi tvö ár sem hann hafði verið á þeim. Lyfin höfðu virkað mjög vel, hegðunin hafði batnað, einbeitingin betri heima og í skóla, dagleg tilvera fjölskyldunnar hafði komist í eðlilegt horf. En þegar skammturinn var aukinn gat drengurinn ekki sofið - aukaverkanir. Og eftir nokkra mánuði með alltof litlum svefni var ástandið orðið verulega alvarlegt.

Ég gerði eins og læknirinn sagði, hafði jú engu að tapa, var aftur komin út í horn. U.þ.b. viku eftir að ég byrjaði að gefa drengnum Zinc-dropana var Rítalín-Uno skammturinn minnkaður um 1/3. Um viku eftir það alveg hætt og hann hefur ekki byrjað aftur á þeim þegar um tveir mánuðir eru liðnir.

Drengurinn er glaðari, félagslega virkari, sefur mun betur og lengur, hefur meiri matarlyst og hann virðist geta einbeitt sér í skólanum. Sem sé, hegðunin er ekki eins og fyrir Rítalín-Uno eða þegar hann einhverra hluta vegna ekki hafði tekið lyfin sín. Hún er mun betri og einnig betri heldur en með Rítalíni-Uno.

Ég er alls ekki að tala á móti Rítalíni, þau lyf hafa hjálpað drengnum mikið, en þau voru einfaldlega ekki að virka lengur á jákvæðan hátt. Og þó það hljómi ótrúlega, þá hafa Zinc-droparnir einhver þau áhrif sem leiða til betri hegðunar og betri líðan. Hvað þetta fæðubótarefni gerir gat læknirinn ekki útskýrt fyrir mér og hvað þá ég. Eina sem ég get sagt er það sama og hann: 'Ég veit bara að þetta virkar'.

 Dagbjört


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband