25.2.2007 | 17:21
Skolan mitt i förorten
Ein af bókunum sem ég er að lesa þessa dagana heitir Skolan mitt i förorten eftir félagsfræðinginn Nihad Bunar (reyndar verð ég að viðurkenna að ég er í basli með að skilja orðið förorten). Ég er bara rétt að byrja svo ég get ekki sagt mikið um bókina. En í henni skrifar Bunar m.a. um fjölmenningu, aðlögun, aðskilnað og aðferðir skóla og nemenda til að takast á við afleiðingar aðskilnaðar. Bunar er Bosníumaður sem kom sem flóttamaður til Svíþjóðar 21 árs gamall og starfar m.a. við rannsóknir við Háskólann í Stokkhólmi. Hér má sjá viðtal við hann sem ég fann á netinu.
Dagbjört
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2007 | 18:48
Gott framtak hjá Samherja á Dalvík!
Samherji á Dalvík býður nú íslenskukennslu fyrir útlenda starfsmenn sína á vinnutíma. Þetta finnst mér frábært framtak og greinilegt að þarna eru metnaðarfullir stjórnendur á ferð sem kunna og vilja fjárfesta í starfsfólki sínu. Það að eiga möguleika á að stunda íslenskunám á vinnutíma auðveldar lífið hjá fólki sem vinnur langan vinnudag og kemur sér væntalega að lokum til góða fyrir atvinnurekandann. Ég las þessa frétt í blaðinu Norðurslóð, dagsetta í dag, sem gefið er út á Dalvík. Því miður gat ég ekki fundið fréttina rafræna til að birta hér.
Dagbjört
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.2.2007 | 23:31
Björn Eidsvåg, hinn frábæri listamaður kemur mér ávalt í gott skap.
Ég býst við að það taki mig langan tíma að læra á alla þessa spennandi möguleika sem felast í þessu merkilega stjórnborði hér á bloginu. Mig langar óttalega til að setja inn tónlist, en ég kann ekki alveg á það ennþá. Allavega gekk ekki í fyrstu tilraun, og reyndar ekki heldur í tilraun nr. tvö.... En allavega þá er ég að hlusta á þann frábæra tónlistarmann Björn Eidsvåg. Hann syngur um allt sem við kemur mannfólkinu. Hjónabandið og flækjur þess, drykkju, samkynhneigð, sjálfsmorð, ástina, stjórnmál, réttlæti .... og svo lengi mætti telja. Í lögum hans felast sögur, litlar myndir sem ég hverf inn í í hvert sinn sem ég hlusta á lögin. Ég sé fyrir mér fólkið, finn fyrir tilfinningum þess, sorgum og gleði. Og þegar ég verð búin að læra á öll undur stjórnborðsins þá mun ég setja inn einhver vel valin lög þessa frábæra listamanns En þangað til þá er ég allavega búin að setja inn tengil á vefsíðu þar sem hægt er að kynnast listamanninum ögn betur.
Kveðja, Dagbjört
Bloggar | Breytt 25.2.2007 kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.2.2007 | 23:27
Þjóðleikhúsið býður börnum með íslensku sem sitt annað tungumál ókeypis í leikhús.
Það gleður mitt hjarta að sjá frétt sem þessa
'Í tilefni Vetrarhátíðar Reykjavíkurborgar býður Þjóðleikhúsið börnum með íslensku sem sitt annað tungumál ókeypis í leikhús laugardaginn 24. febrúar 2007. Um er að ræða brúðusýningu Bernd Ogrodniks byggða á sögu og tónlist Prokofievs um Pétur og úlfinn.'
Þetta er einmitt ein leið af svo mörgum sem hægt er að fara til þess að taka þátt í aðlögunarferli innflytjenda. Það er mín skoðun að með þessu sýnir Þjóðleikhúsið í verki að það kann að meta þá fjölmenningarlegu flóru sem er að myndast í samfélaginu okkar. Einnig má benda á að listamaðurinn sjálfur er innflytjandi hér á Íslandi og því ljóslifandi dæmi um hve ríkulega einstaklingar geta skilað til samfélagsins, í þessu tilfelli í formi lista.
Kv. Dagbjört
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.2.2007 | 18:04
Upplýsingasími fyrir innflytjendur
Upplýsingasími fyrir innflytjendur á ýmsum tungumálum finnst mér frábært framtak hjá Rauða krossinum og Fjölmenningarsetri Vestfjarða. Einföld leið til að auðvelda fólki upplýsingaleit. Það getur nefnilega tekið ansi langan tíma til að vita hvernig 'kerfið' virkar, hvar á að nálgast hina ýmsu hluti, hver er réttur fólks og skyldur einnig. Ég bjó eitt sinn í Noregi, og þó að norsk menning og 'kerfi' sé mjög líkt hinu íslenska þá geta þessi praktísku atriði tekið svo óttalega langan tíma og orku. Hvert á maður að fara, hvern getur maður spurt... og ef maður þekkir ekki einhvern sem þekkir til neyðist maður endalaust til að finna upp hjólið. Þess vegna finnst mér frábært að fólk sem talar tælensku, ensku, pólsku og nú serbnesk/króatísku geti hringt eitt símtal og fengið upplýsingar. Það er nefnilega þannig að til lengri tíma litið þá er það samfélagið í heild sem græðir. Þ.e. eftir því sem betur er staðið að aðlögun innflytjenda að samfélaginu, þeim mun betur geta þeir lagt sitt af mörkum til samfélagsins.
Kveðja, Dagbjört
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.2.2007 | 16:40
Fyrsta deitið - Valentínusardagur
Það eru liðin 20 ár frá því að ég fór á mitt fyrsta deit! Já, já, ég veit vel að þið bara getið ekki trúað að það sé liðinn svona langur tími, en svona er þetta nú samt. Það má segja að á laugardagkveldinu 14. feb. '87 hafi grunnurinn verið lagður fyrir minn fjölmenningarlega áhuga, sem birtist með margvíslegum hætti. Þetta deit átti sér stað í smábæ nokkrum að nafni Albany úti á sléttum Texas fylkis í Bandaríkjunum. Ég bjó þá sjálf í bæ sem heitir Abilene, ekki svo langt í burtu. Nú herramaðurinn var Norðmaður að nafni Jon Karsten Frantsen, þannig að alþjóðlegt var það. Auðvitað var ég soldið skotin, en samt ekki mikið, þetta var nú aðallega spennandi - svona fyrsta deitið og allt það.
Kveðja, Dagbjört
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.2.2007 | 20:35
Góð grein í Skólavörðunni um innflytjendur
Mig langar til að benda ykkur á mjög góða grein sem birtist í nýjasta hefti Skólavörðunnar . Þar skrifar Hallfríður Þórarinsdóttir, mannfræðingur, um innflytjendur á Íslandi. Hún hefur sjálf reynslu af að vera innflytjandi og hefur því innsýn og skilning á því ferli sem fólk gengur í gegnum þegar það flyst til annars lands. Hvet ykkur til að lesa greinina og íhuga í ykkar eigin huga það sem Hallfríður spyr lesendur sína að: Er rými í vitund þinni lesandi góður, fyrir menningarlegan margbreytileika?
Kveðja, Dagbjört
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.2.2007 | 16:17
Af hverju ætti íslenskukennsla að vera ókeypis?
Nú spyrja sig eflaust margir af hverju í ósköpunum við Íslendingar ættum að fara að greiða íslenskukennslu fyrir útlendinga sem koma hingað til landsins. Og ég efast ekki um að margur hafi sterkar skoðanir á því. Ég ætla ekki að tína til allar þær ástæður sem mér dettur í hug núna, verður að bíða betri síma. En eitt er það sem mér finnst hinn almenni borgari ekki átta sig á og það eru öll verðmætin sem eru fólgin í innflytjendum. Eitt af þeim verkfærum sem Íslendingar geta nýtt sér til að 'virkja', ' komast yfir' þessi verðmæti er góð íslenskukennsla sem innflytjendur eiga kost á að nýta sér. Því tungumálið er lykillinn að samfélaginu og með því að læra tungumálið geta innflytjendur nýtt menntun sína, hæfileika og reynslu. Og af henni er nóg að mínu mati. En þetta er einungis ein af mörgum ástæðum fyrir því að íslenskukennsla ætti að vera ókeypis og tala nú ekki um á skrifstofutíma! Um allar hinar ástæðurnar verð ég að fá að tjá mig seinna, því nú kallar vinnan....
Kv. Dagbjört
Kennsla í íslensku verði ókeypis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2007 | 22:31
Fyrsta bloggfærsla
Ég hef lengi velt því fyrir mér hvort ég eigi nú að blogga eins og allir hinir. Íslendingseðlið segir sterkt til sín, fyrst allir hinir eru að blogga verð ég nú líka að blogga. Svo var næsta spurning, um hvað á ég að blogga.... hvað ég geri á daginn, áhugamál, fjölskylduna.... Niðurstaðan úr þeim vangaveltum varð áhugamálin. Og auðvitað fylgir eitthvað með um fjölskyldu og það sem vegi mínum verður. Næsta pæling var um stafsetningavillur. Öll þessi blessuðu 'n/nn' svo ég tali nú ekki um 'i/y'. Allar þessar reglur varðandi stafsetningu reynast mér afar erfiðar og hafa alltaf gert. Ég ætla nú ekki einu sinni að ræða hugsanlegar málvillur..... En ég lofa að gera mitt besta hvað varðar stafsetningu og málfar. Þá var komið að stærstu spurningunni: Hvað á notendanafnið að vera?? Mitt eigið nafn er upptekið, svo þá vildi ég hafa það á einhvern hátt táknrænt. Og eins og kvenfólk oft gerir þá ráðfærði ég mig við vinkonur hvar værum við konur ef við ættum ekki vinkonur. Jújú, það þurfti 3 vinkonur til, til þess að ég yrði sátt við notendanafnið; hugrenningar. Ég vil nefnilega nýta þetta blogg mitt til að koma hugrenningum mínum áleiðis. Nú ef einhver nennir og hvað þá hefur gaman af að lesa þær verður bara að koma í ljós. Þessar hugrenningar munu fjalla um hluti eins og málefni innflytjenda sem eru mér afar hugleikin, skólamál, e.t.v. pólítík og hvað annað sem vekur áhuga minn. Svo vona ég einfaldlega að ég sjálf eigi eftir að hafa gaman af
Dagbjört
Bloggar | Breytt 13.2.2007 kl. 20:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)