Ert þú fordómafull/ur??

Hvað eru fordómar? Á einfaldan hátt má segja að svarið felist í sjálfu orðinu for - dómur, það að dæma fyrirfram, dæma án þess að kynna sér viðkomandi einstakling eða aðstæður. En ætli þú lesandi hafir fordóma í garð einhverra? Ég held að flestir svari þessari spurningu neitandi, allavega heyrir maður fólk gjarna segja: Ég er ekki fordómafull/ur en .... Nú eða að fólk segir: Ég er ekki rasisti en...

Hvað þýðir þetta litla orð 'en' í þessu tilfelli? Það getur m.a. þýtt: Útlendingar eru fínir, bara að ég þurfi ekki að eiga samskipti við þá.

Íslendingar hafa löngum talið sig vera fordæmalausa þjóð. Það er bara einhvernveginn þannig að við verðum ekki vör við eigin fordóma fyrr en á reynir. Og nú reynir á. Algengastir á vesturlöndum í dag eru svokallaðir hversdagsfordómar, þ.e. duldir fordómar. Þeir lýsa sér í pirringi, óvingjarnlegri framkomu, tortryggni, uppnefnum, háði, hroka, afskiptaleysi og verri þjónustu. Kannast ekki einhver við að hafa annað hvort sagt eða heyrt fólk segja: Ég fékk mér 'tæju' til að þrífa hjá mér. Eða: Það er svo mikið af Pólverjum þarna að ég nenni ekki þangað inn. Það mætti telja upp mörg dæmi um það sem fólk segir, allt frá því að kvarta undan of mikið af útlendingum út í næstu matvöruverslun til þess að hræðast það að börn þeirra fái lakari skólaþjónstu vegna þess hve margir útlendir nemendur séu í skólanum.

Þó að ég beini sjónum mínum aðallega að fordómum í garð fólks af erlendum uppruna þá beinast þeir að mörgum öðrum minnihlutahópum (beinast einnig í báðar áttir, en það skrifa ég um seinna). Fyrr í kvöld horfði ég á fréttir RUV og þá var verið að fjalla um málefni samkynhneigðra í Færeyjum. Það var tekið viðtal við hjón á förnum vegi og þau spurð um skoðun þeirra. Frúin varð fyrir svörum á meðan eiginmaðurinn nikkaði með góðlátlegt bros á vörum. Hún sagði sem svo að þau væru mótfallin tilteknum lögum sem spurt var um (sem að mig minnir eru til að styrkja/verja stöðu minnihlutahópa í Færeyjum, m.a. homma og lesbía) af því að þau væru Kristin (með áherslu)... og svo brosti hún sínu blíðasta og bætti við að þau samþykktu samt sem áður alveg þetta fólk sem manneskjur....... Sem sé, þú ert manneskja en átt ekki að fá sömu réttindi og ég, ekki eins rétthá.

Nóg um þetta í bili, væri gaman að fá að heyra skoðanir ykkar, dæmisögur eða innlegg.

 Dagbjört

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband