Bráðum eitt ár...

... frá því að síðasta bloggfærsla var skrifuð. Spurning um að athuga hvort ég kunni á þetta enn Wink En það hefur enginn tími verið fyrir blogfærslur, aðrir hlutir gengið fyrir, svona eins og vinnan og hestarnir yndislegu Smile ... já og blessuð fésbókin Blush En nú er jú sumarfrí og þá flæðir orkan um kroppinn og háttatíminn er ekki lengur upp úr kl. 21 á kvöldin!

En annars er ég nýkomin úr frábærri hestaferð! Mín fyrsta svona frá a-ö og ég verð að segja að þetta er mátinn til að gleyma stund og stað og kúpla sig algerlega út úr þeim veruleika sem maður annars hrærist í.

Svo langar mig að mæla með einum frábærum rithöfundi; Vilborgu Davíðsdóttur! Eg hef verið að lesa bækurnar hennar, nú síðast Eldfórnina. Og nú bíð ég eftir næstu bók sem mér skilst að eigi að koma út í haust Smile Hlakka til!

                Dagbjört


Götugrill á Dalvík

 

IMG_0360
 
Það var frábært veður á götugrillinu sem haldið er á Dalvík að kvöldi Fiskidagsins mikla.
Notaleg stemning, frábær matur og skemmtilegt fólk Smile

 

 


Þriðji ísbjörninn í Danmörku...

Ísbörninn fundinn
 
Á meðan á  NLS námskeiðinu stóð, sem ég segi aðeins frá hér að neðan , fannst þriðji ísbjörninn í Alexanders höll í Danmörku LoL

Sumarfrí... og fleira.

Uppþvottavélin malar, þurrkarinn hefur þagnað, rigningardroparnir falla niður af þakinu og í fjarska sé ég þokuna liðast um fjöllin - friður og ró. Það er komið langþráð sumarfrí, eða svona hér um bil, það er alla vega hafin sumarlokun í leikskólanum. Það hefur verið svo ótrúlega mikið að gera undanfarna mánuði að ég veit eiginlega ekki hvar ég ætti að byrja... en einu verð ég nú að segja frá!

Ég lauk meistararitgerðinni í vor og brautskráðist frá Háskólanum á Akureyri með M.Ed. og það með fyrstu einkunn (voða stolt af því). Ég er alveg ótrúlega ánægð með að hafa lokið þessu, mér finnst stærsti sigurinn vera sá að hafa ekki gefist upp! Ég kláraði og má vera stolt með afraksturinn Smile Ég er samt ekki alveg búin að átta mig á að ég er búin með þetta; að þurfa ekki að setjast niður á kvöldin og á helgum við að skrifa og pæla. Hef í rauninni ekki haft tíma til að átta mig á því. Í maí tók ég við stöðu skólastjóra í leikskóla hér á Dalvík og því hefur í raun verið alveg fyllilega nóg að gera! 

Annað sem mig langar að segja frá er að ég fór á sumarnámskeið/ráðstefnu á vegum NLS í Danmörku nú um daginn. Yfirskrift ráðstefnunnar var UTBILDNING OCH PROFESSION I EN FÖRÄNDERLIG TID og þar var t.a.m. verið að velta fyrir sér framtíðinni; einstaklingum framtíðarinnar, menntun framtíðarinnar, hvernig við viljum að menntun framtíðarinn verði o.s.frv. Við hlustuðum t.a.m. á framtíðar-rannsakandann Anne-Marie Dahl. Hún velti upp ýmsum spurningum varðandi framtíðina í ljósi sögunnar. Eins og að fyrr á tímum þurftum við á verkviti eða líkamlegum styrki á að halda, undanfarin ár eða áratugi hefur hugvitið verið brýnt fyrir vinnumarkaðinn, en hvað ætli framtíðin þurfi á að halda? Anne-Marie velti því fram hvort það geti verið 'tilfinningasviðið'. E.t.v. er rétta orðið 'brjóstvit' en ég er samt ekki alveg viss um það. Að við séum á leið  frá þekkingarsamfélaginu til tilfinningarsamfélagsins -  Fra informations til følelsessamfund. Hún velti því einnig fram hvort pýramídi Maslows muni snúast við í framtíðinni... Þeir sem vilja kíkja á glærur frá henni þá er þær að finna hér. Einnig hlustuðum við á Anders Rusk sem er formaður finnsku kennarasamtakanna (svona eins og Eiríkur er hjá KÍ). Hann fjallaði um 'finnska undrið', kosti þess og galla. Eins og finnskir kennarar njóta mikillar virðingar í finnsku samfélagi, viðhorf til þeirra er sambærilegt við viðhorf til lækna og lögfræðinga. Hann talaði um að það væri mikill agi í finnskum skólum, að kennarinn réði í skólastofunni, en hann minntist einnig á að finnskum nemendum líður ekki vel og að mikil vöntun verði á skólastjórnendum á komandi árum í finnskum skólum. Og ekki er allt gott við það að skora hátt í PISA, þá reynist erfitt að fá meiri peninga inn í skólakerfið; 'af hverju ættuð þið að þurfa meira fé, það gengur jú svo vel!'. Og finnskir kennarar þurfa meistaragráðu til að kenna, en ekki allir kennarar. Finnskir leikskólakennarar sitja eftir öðrum kennurum hvað menntun varðar og njóta heldur ekki sömu virðingar í samfélaginu. 

Nú er uppþvottavélin þöggnuð, ekki sést lengur í fjöllin vegna þoku og ég sé að önnur kisan mín hún Tuðra er vel haldin, án þess þó að klára matinn sinn sem henni er gefinn hér heima - spurning hvernig smáfuglunum líður....

  Kv. Dagbjört
 


 


Prik dagsins fá þær...

... Svava Mörk og Helga Björg Axelsdóttir fyrir elju, áræðni, metnað, bjartsýni og einskæran dugnað! Þær hafa nefnilega stofnað BJARMA sem er eða verður ungbarna-leikskóli í Hafnarfirði. Ótrúlega duglegar konur sem láta ekkert stöðva sig!

                   Dagbjört
 


Áskorun

Prikavika í bloggheimum .....nú gefum við prik dagsins alla þessa viku í bloggheimum. Þú finnur eitthvað jákvætt, einstaklinga eða hópa sem hafa staðið sig vel.....og þeir fá Prik dagsins

                 Kv. Dagbjört
 


Jeeves og Wooster

Munið þið eftir þeim Jeeves og Wooster? Hinn klári og geðþekki þjónn, Jeeves, sem leikinn er af Stephen Fry og hinn uppátækasami 'sjéntilmaður' Berthram Wooster. Ég ætla að fara að endurnýja kynni mín af þeim félögum þar sem í gær var fjárfest í safn-mynddiskum með þeim félögum. Upp í hugann kemur píanóleikur, hraðskreiðar (á þess tíma mælikvarða) glæsibifreiðar, hin ótrúlegustu uppátæki Wooster og Jeeves að bjarga vinnuveitanda sínum og að pressa föt... Svo er bara a vona að þættirnir standi undir væntingum og að þeir kitli hláturtaugarnar jafn mikið og þeir gerðu fyrir rúmlega 20 árum eða svo LoL

                Kveðja, Dagbjört
 


Rommkúlur, Mallorka og Súperman

Hafiði smakkað rommkúlur?? þær eru bara unaðslegar.... og þær renna ljúft niður með hverju sem er; rauðvíni, te og þess vegna eintómar líkt og í þetta sinn. Já og svo er það Súperman, er að horfa á myndina - góð mynd, frábær myndataka og leikarar eru vel valdir í hlutverk. Hinn ungi Súperman nær meira að segja hinum gamla góða ansi vel. Já og svo þetta með Mallorka. Var að ganga frá stelpuferð með dóttur minni til Mallorka í júlí Cool Það verður bara frábært! Hef aldrei farið með dóttur minni (né syni) til sólarlanda (hef bara farið einu sinni sjálf). Verður útskriftarferð fyrir okkur báðar; hún úr grunnskóla og ég úr meistaranámi Grin

 Kveðja, Dagbjört


Ritgerðarfréttir

Nú er tilefni til að blogga!! Í þessum töluðu orðum er verið að prenta út eintak af meistararitgerðinni minni til að senda til prófdómara LoL ...... Og mér er flökurt...... Ég finn að það er eitthvað innra með mér sem vill alls ekki senda hana frá mér, því það gætu hugsanlega e.t.v. leynst einhverjar villur í henni.... liggur við að þetta sé eins og þegar maður lætur litla barnið sitt í fyrsta sinn í pössun til annarra. En annað kvöld þegar ég er búin að senda 'barnið' á brott, kemur kærkomin hvíld Smile
Og næsta skref í ritgerðarmálum, er síðan að verja stykkið sem verður um miðjan maí.

 

      images


Háskólinn á Akureyri.

Það var hringt í mig í kvöld frá Háskólanum á Akureyri (HA) og ég beðin að taka þátt í kynningu á skólanum föstudaginn 11. apríl, þar sem ég myndi segja frá meistaraverkefni mínu. Ég var voða upp með mér, en varð því miður að afþakka gott boð þar sem ég verð sem formaður skólamálanefndar FL á þingi Kennarasambands Íslands. Ég er hins vegar að hugsa um að segja frá upplifun minni af HA.

Ég byrjaði framhaldsnám við kennaradeildina haustið 2004. Mín fyrsta upplifun var hve allir voru jafnir, kennarar sem nemar, og hve mannlegur skólinn er. Það er mikið lagt upp úr gagnrýnni hugsun og umræðu nemendanna. Sem er mjög gott því kennarar með starfsreynslu þurfa oft að tjá sig ansi mikið Wink En eftir því sem á leið námið var greinilegt að nemarnir urðu flinkari í að ígrunda orð sín og skoðanir og koma þeim á framfæri. 

Það sem ég hef persónulega fengið út úr náminu er ansi margt. En til að nefna eitthvað að þá hefur t.d. allt námsumhverfi breyst ansi mikið frá því að ég var í Fósturskóla Íslands fyrir 15 til 18 árum!!! Og fyrir árið 2004 kunni ég ekki til verka þegar kom að upplýsingaleit í hinum ýmsu gagnabönkum sem finna má á netinu. Í dag þá kann ég það. Ég kann að leita mér þekkingar sem ég hef þörf fyrir eða áhuga á og nýta mér hana í leik eða starfi. Ég er miklu öruggari en áður, ég ígrunda það sem ég sé, heyri og les meira en áður. Og það er eitthvað sem ég held og veit að muni nýtast mér mjög mikið í framtíðinni.  Og með rannsóknarvinnu minni hef ég öðlast dýrmæta innsýn og skilning á aðstæðum ákveðins minnihlutahóps innflytjenda á Íslandi. Sú innsýn og þekking nýtist mér síðan í samskiptum við fólk almennt, og það er ekki spurning að það reynir ansi mikið á samkiptahæfileika leikskólakennara. Nú, svo er eitt mjög praktískt atriði sem á eftir að nýtast mér í starfi og félagsstörfum, það er sú mikla þjálfun sem ég hef fengið í að skrifa texta! Ég er sko sannarlega ekki fullnumin í þeirri list, en ég er komin langa leið frá því sem var. Það er margt annað sem ég gæti talið upp, en ég læt þetta nægja að sinni. Ég er allavega mjög ánægð og mæli með þessu námi Smile

Kveðja, Dagbjört 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband