Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Meistararitgerð og nýtt starf.

Ég var spurð, í athugasemd, um hvað ritgerðin væri sem tæki alla mína athyggli og við hvaða námsbraut ég væri. Ég er að ljúka við meistararitgerð nú í vor, en ég hef verið að nema við framhaldsbraut kennaradeildar Háskólans á Akureyri. Í meistaraverkefninu hef ég verið að rannsaka líf og tilveru kvenna frá Kosovo sem búsettar eru hér á landi. Það er ótrúlega mikil vinna sem liggur að baki þessu verkefni... og eins og ég hef sagt áður vissi ég það fyrir, en ég gerði mér samt enga grein fyrir hve mikið þetta yrði þegar upp yrði staðið. Þetta er 30 eininga eigindleg rannsókn, þar sem ég tek djúp-viðtöl við nokkrar albanskar konur.  Rannsóknin er ekki tilbúin eins og er, en það sem mér finnst svona einna merkilegast, eða standa upp úr rannsóknarniðurstöðunum, er hve víðtæk áhrif lítil tungumálakunnátta innflytjenda hefur á tilveru þeirra. Ég held líka að við Íslendingar drögum oft rangar ályktanir af viðbrögðum eða hegðun sumra innflytjenda og við gerum okkur líka í hugarlund að allir múslimar séu steyptir í sama formið. En ég á nú örugglega eftir að ræða meira um rannsóknina og niðurstöður hennar þegar ég hef lokið við að verja ritgerðina Smile

Hún Milla kollegi minn spurði í athugasemd 'hvaða rósir' þetta væru sem væri verið að senda mér Smile Þær eru nú vegna þess að um daginn var ég ráðin í stöðu skólastjóra við leikskólann Krílkot (sem ég hef starfað í síðan sl. haust). Ég er þegar byrjuð í hálfu starfi, er í læri, og fyrsta maí tek ég síðan alveg við starfinu. Þetta er mjög spennandi, finnst mér allavega, verður örugglega ekki auðvelt... en, þetta er ögrun og það er einmitt það sem ég vil!

Kveðja, Dagbjört 


Tímaleysi, sjálfstæð vinnubrögð og agi...

Í dag eru 30 dagar til jóla, ég get ekki sagt að mig hlakki neitt sérlega til, eiginlega kvíður mig frekar fyrir þessum tíma. Ekki það að mér finnist ekki gaman á jólunum (og já ég segi á jólunum) eða að ég eigi einhverjar ægilega minningar um drykkjuskap eða annan ófögnuð sem ég tengi við hátíðirnar. Ég hef bara einfaldlega ekki tíma í þetta allt saman. Og ástæðan er, jú, eins og svo margir Íslendingar kem ég sjálfri mér í þá aðstöðu að hafa allt of mikið að gera. Ég segist sko alls ekki vera ein af þessum 'súper konum' sem allt gera og geta, en samt vaknaði ég einn daginn við það að vera að skrifa meistararitgerð ásamt því að vinna fullan vinnudag (og ég ætla nú ekki að þreyta ykkur sem nennið á annað borð að lesa þetta með því að telja upp fleiri verkefni). En munurinn á mér og 'súperkonunum' vil ég meina er að þær eru líka með allt í röð og reglu heima hjá sér ... nema þá kannski þær sem kaupa sér heimilisaðstoð ... gæti verið þess vegna sem allt er í röð og reglu hjá þeim...

En aftur að blessaðri meistararitgerðinni. Ég taldi mig vita út í hvað ég væri að fara þegar ég lagðist í það að gera þessa ritgerð. En það er eitt að sitja námskeið í framhaldsnámi og allt annað að vinna meistaraverkefni. Í námskeiðum eru ákv. skiladagar og ákv. verkefni sem nemendur vinna, einir eða með öðrum. Þegar um meistaraverkefni er að ræða eru ekki þessir tíðu skiladagar. Nemandinn vinnur verkefni sitt einn, þ.e. ekki með öðrum nemanda. Hann hefur jú leiðbeinanda sinn, en það er enginn annar nemandi að vinna sama verkefni, þannig að það er ekki hægt að taka upp tólið og tala við aðra nemendur um efnið sem slíkt. Þannig að þegar ég heyri um fólk (sem heyrist ansi oft) sem er búið með allt í háskólanámi sínu nema lokaverkefnið (fólki finnst það nefnilega merkilegt að viðkomandi skuli vera búinn með svona mikið) þá hugsa ég, já þessi hefur það e.t.v. ekki í sér sem til þarf, eins og AGA, því þetta snýst um sjálfstæð vinnubrögð, að geta byrjað á ákv. verkefni og klárað það. Og talandi um aga, þá ætla ég að hætta þessari sjálfsvorkun um hve mikið ég hef að gera og koma mér að verki, en í raun (fyrir þá sem eru ekki löngu hættir að lesa) þá er ég stödd, að mér finnst, á mjög spennandi stað í vinnunni, ég er að skrifa niðurstöður og það er það skemmtilegasta hingað til! Að spá og spekúlera og túlka orð meðrannsakenda minna (viðmælenda).

Og fyrir þá örfáu, ef einhverja, sem enn lesa þetta, þá er ég að skrifa um líf og reynslu kvenna frá Kosovo á Íslandi Smile

Bestu kveðjur, Dagbjört 


“You give me one idea and I will give you mine and together we will have two.”

creativity-flow-600Þessi orð, you give me one idea and I will give you mine and together we will have two, skrifar vinkona mín í athugasemd sinni við færslu þar sem ég er að velta fyrir mér hvað sköpunargáfa sé. Ég held að í starfi eins og mínu (og hennar líka), þ.e. leikskólakennarastarfinu sé gott að hafa þessa setningu hugfasta og einnig er nauðsynlegt að hafa skapandi hugsun.

Starfið krefst mikillar samvinnu við kennara, fullorðna og börn. Kennarinn er sífellt að hugsa upp nýjar leiðir, aðferðir, hugmyndir, því ef hann gerir það ekki verður stöðnun og jafnvel stjórnleysa. Hvað meina ég með stjórnleysu? Það að eiga góð samskipti við hóp barna sem sum eru róleg, önnur kröftug og enn önnur með hina ýmsu stimpla ( eins og ADD, ADHD, ODD o.s.frv.), en öll eru þau skemmtileg hver á sinn hátt, nú hvert er ég að fara með þessari umræðu minni? Jú, í þessum samskiptum kemur alltaf eitthvað óvænt upp og kennarinn þarf að eiga í farteski sínu hinar ýmsu aðferðir og hugmyndir sem hann getur gripið til þegar á þarf að halda. Að geta gert það þegar mest áreiti er til staðar, eitt barnið grætur, tvö slást, annað vill endilega fá að segja þér frá einhverju sem því liggur á hjarta og enn annað barn dettur og meiðir sig með tilheyrandi gráti, krefst skapandi hugsunar.

Nú og hvað kemur þessi setning um hugmyndirnar tvær þessu við? Jú, þegar andrúmsloft vinnustaðarins er þannig að fólk gefur af sér hugmyndir og ekki síst er tilbúið að taka við hugmyndum annarra (sem virðist oft á tíðum vera mjög erfitt) þá verður til skapandi andrúmsloft. Þetta andrúmsloft virkar eins og úrvals gróðurmold fyrir sumarplöntur, hver hugmyndin sprettur upp af annarri. Fólk fyllist krafti, verður glaðara og um leið verður vinnan léttari. Fólk á fleiri hugmyndir í pokanum sínum sem það getur gripið til jafnt í agamálum sem í myndlist, málörvun, leikjum eða samskiptum ýmiskonar.

                             Kveðja, Dagbjört

 

chickengenius

  

  


Hið sviflétta og vegvísa ímyndunarafl

Á laugardaginn sat ég ráðstefnuna Ímyndunaraflið sviflétt og vegvíst
sem haldið var á vegum Háskólans á Akureyri. Það sem situr sem mest eftir af ráðstefnunni var fyrirlestur Dr. Elisabeth Wood  en hún hefur rannsakað leik barna og fræddi áheyrendur um margt skemmtilegt og áhugavert varðandi hann.

Það sem mér fannst merkilegt og samrýmist mínum eigin 'starfsfílósófíu' eru t.a.m. orð hennar eins og: The limits [of the play] come from the adults. Og um umhverfi leiksins, þ.e. þau leikföng/efnivið sem við fullorðnu látum börnunum í té sagði hún m.a.: ... need to be more flexible ... whatever you [the kids] want it to be environment! Hún vildi sem sé meina að litlar eldhúsinnréttingar (tók þær sem dæmi) í leikskólum takmarki leikinn, og þar er ég henni hjartanlega sammála. Hún talaði einnig um að börn þurfi tækifæri til að leysa vandamál: Give time for creating problems - Give time for solving problems. Við fullorðnu erum nefnilega oft svo fljót á okkur, í allri okkar hjálpsemi og afskiptasemi, að taka fram fyrir hendurnar á börnunum, þegar þau eru fullkomlega fær um að leysa málin sjálf - og læra svo miklu meira af því fyrir vikið.

Hún spurði einnig: Do we stimulate rediness or do we wait? Þ.e. ætlum við að bíða eftir að börnin læri 'allt' í gegnum leikinn, eða gefum við þeim einnig örvun á ákveðnum sviðum? Sem sé, kennarastírð verkefni í bland við frjálsa leikinn. Þessi orð hennar harmónera einnig við mínar starfskenningar. Mitt mat er að það sem kallast hópastarf í leikskólum eða vinnustundir er í raun 'kennslustund' nemendanna. Þar getur kennarinn 'lagt inn' ýmsa þætti/færni, sem nemendurnir geta síðan unnið úr í frjálsum leik. Því eins og Dr. Wood benti á að ef enginn hefði kennt henni algebru hefði hún aldrei haft fyrir því að læra hana!

Sem sé, hinn gullni meðalvegur hvað varðar frjálsræðið eins og í svo mörgu öðru í lífinu Smile

Annars hef ég mikið velt fyrir mér undanfarna mánuði (eða ár í rauninni), hvað sköpunargáfa (creativity) í rauninni sé. Og hvernig best sé að örva hana. Ef þið hafið einhverja skoðun á þessu þætti mér gaman að heyra hana Smile

    Kv. Dagbjört 


Zinc-dropar, rítalín og ADHD

'Þetta hefur ekkert verið rannsakað, ég veit bara að þetta virkar'. Sagði læknirinn við mig þegar ég sat hálf dofin í stólnum inni á læknastofunni að ræða hegðun sonar míns, rítalín og svefnleysi. Ég horfði einbeitt á hann og hugsaði margoft með sjálfri mér: 'Dagbjört, þú ert ekki hjá grasalækni eða hómópata, þú ert hjá heimilislækninum, á heilsugæslunni!' (Ég vil taka fram að ég ber mikla virðingu bæði fyrir grasalæknum og hómópötum).

'Þú gefur honum bara fimm dropa út í ávaxtasafa á hverjum degi sem verður til þess að hann getur hætt á rítalíninu eftir einhverja daga eða vikur'. Ég ætlaði nú ekki alveg að trúa því sem ég heyrði, jánkaði bara og hugsaði með mér að ég hefði nú engu að tapa - allt væri betra en núverandi ástand.

'Já og takt þú bara líka dropana, þeir hressa þig bara við því þú ert ekkert ofvirk', bætti læknirinn við. Og ég átti að taka 10 dropa út í ávaxtasafa. Hmm, enn þurfti ég að minna mig á hvar ég væri stödd.

Á heimili mínu ríkti stríðsástand. Sonur minn (sem er með greininguna ADHD + mótþróaþrjóskuröskun) hafði fengið stærri skammt af Rítalín-Uno töflunum þar sem hann hafði jú stækkað ansi mikið þessi tvö ár sem hann hafði verið á þeim. Lyfin höfðu virkað mjög vel, hegðunin hafði batnað, einbeitingin betri heima og í skóla, dagleg tilvera fjölskyldunnar hafði komist í eðlilegt horf. En þegar skammturinn var aukinn gat drengurinn ekki sofið - aukaverkanir. Og eftir nokkra mánuði með alltof litlum svefni var ástandið orðið verulega alvarlegt.

Ég gerði eins og læknirinn sagði, hafði jú engu að tapa, var aftur komin út í horn. U.þ.b. viku eftir að ég byrjaði að gefa drengnum Zinc-dropana var Rítalín-Uno skammturinn minnkaður um 1/3. Um viku eftir það alveg hætt og hann hefur ekki byrjað aftur á þeim þegar um tveir mánuðir eru liðnir.

Drengurinn er glaðari, félagslega virkari, sefur mun betur og lengur, hefur meiri matarlyst og hann virðist geta einbeitt sér í skólanum. Sem sé, hegðunin er ekki eins og fyrir Rítalín-Uno eða þegar hann einhverra hluta vegna ekki hafði tekið lyfin sín. Hún er mun betri og einnig betri heldur en með Rítalíni-Uno.

Ég er alls ekki að tala á móti Rítalíni, þau lyf hafa hjálpað drengnum mikið, en þau voru einfaldlega ekki að virka lengur á jákvæðan hátt. Og þó það hljómi ótrúlega, þá hafa Zinc-droparnir einhver þau áhrif sem leiða til betri hegðunar og betri líðan. Hvað þetta fæðubótarefni gerir gat læknirinn ekki útskýrt fyrir mér og hvað þá ég. Eina sem ég get sagt er það sama og hann: 'Ég veit bara að þetta virkar'.

 Dagbjört


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband