Viðhorf ungs fólks til innflytjenda

Ég er að grúska í rannsókn á viðhorfi ungs fólks til innflytjenda á Íslandi.  Þar er ýmislegt áhugavert að finna fyrir þá sem hafa áhuga á þessum málum yfirleitt. Eitt af því er að hlutfall þeirra nemenda í 9. og 10. bekk grunnskóla sem telja að það séu of margir innflytjendur á Íslandi nánast tvöfaldaðist milli áranna 1997 og 2003, fór úr 24% í 41%. Ég velti fyrir mér hvernig ætli staðan sé í dag? Síðan 2003 hefur erlendum ríkisborgurum fjölgað úr u.þ.b. 3.5% í  6% í árslok 2006. Og þá eru ekki taldir með þeir innflytjendur sem þegar hafa fengið ísl. ríkisborgararétt. Ég hef á tilfinningunni að hlutfall þeirra sem finnast of margir innflytjendur á Íslandi hafi fjölgað ansi mikið frá því 2003. 

Stóra spurningin hlítur að vera sú hvað við ætlum að gera í málunum? Einfalt að spyrja, en erfitt að svara. Eitt af því sem mér finnst er að það er allt of mikið um neikvæðar fréttir af innflytjendum. Hvað með allt það jákvæða sem innflytjendur koma með sér. Það er svo sem ekki eins og þessi tilhneiging fjölmiðla og fólks yfirleitt snerti einungis innflytjendur. Þetta á t.a.m. líka við um unglinga.  Sá hópur er oft dæmdur út frá nokkrum svörtum sauðum í hjörðinni. Einnig held ég að ýmis vinaverkefni geti skilað árangri, þar sem krakkar af íslenskum uppruna eignast vini af erlendum uppruna. Ég sá einhverntíma grein um þess háttar verkefni í Noregi, það er bara stolið úr mér eins og er hvar það var og hvað verkefnið heitir, þannig að ég get ekki bent á það. En allavega, þá var fylgni milli þeirra sem áttu vini af erlendum uppruna og þeirra sem voru jákvæðir gagnvart innflytjendum.

Og af hverju vil ég endilega að krakkar séu jákvæðir gagnvart innflytjendum? Ég held að það vinni gegn fordómum og  að krakkar eigi þá auðveldara með að eiga samskipti við aðra krakka sem eiga annan uppruna en íslenskan. Sem síðan getur leitt til þess að þegar þau verða fullorðin að þau geta unnið með fólki af erlendum uppruna. Ég held að það geti sem sé komið í veg fyrir árekstra, etníska klíkumyndun með öllu því sem henni fylgir o.s.frv. Sem sé, þetta snýr allt að samskiptum milli fólks. En ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili, best að halda áfram með ritgerðarskrif Happy

Kv. Dagbjört 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dagbjört Ásgeirsdóttir

Sæl Gerður.

Þetta er sama könnunin sem ég er að vitna í (þ.e. þar sem ég tala um prósenturnar) og í henni er bæði hugtökin notuð, þ.e. nýbúi og innflytjandi. Í spurningunum sjálfum sem (þeim sem ég hef verið að skoða nú) er orðið nýbúi notað. Ég hef hins vegar sjálf þá reglu að nota ekki orðið nýbúi. Það er orðið svo gildishlaðið og oftar en ekki notað yfir einstaklinga sem eiga uppruna sinn að sækja til Asíu og svo svarta Afríkubúa. Það er í rauninni hálf sorglegt, því orðið nýbúi er hið ágætasta orð og lýsir vel meintu inntaki. En þróunin hefur bara orðið þennan veg.

Ég er sammála þér að ein leiðin til að vinna gegna fordómum sé að 'af-innflytjenda-gera' hópinn, eins og þú orðar það nokkuð skemmtilega. Og það er einmitt það sem fjölmenning og fjölmenningarleg kennsla gengur út á. Og fjölmenningarlegir kennsluhættir í skólum eru fyrir alla nemendur, og það er það sem fólk áttar sig ekki alltaf á. Það þarf ekki að flytjast til milli landa til að upplifa mun á menningu og venjum fólks, það er nóg að gera eins og ég, verandi Vestfirðingur, flytja af suð-vesturhorninu og norður yfir heiðar til Dalvíkur! Og það er nóg að skoða málnotkunina, sem oft á tíðum er gerólík, til að sýna fólki fram á hversu ólík menningin er á milli landshluta. Þannig að fjölbreytileikinn er ekki bara á milli þjóða heldur einnig innan þjóðarinnar. Það sem ég er að reyna að segja með þessu er að með fjölmenningarlegum kennsluháttum verður útlendi nemandinn hluti af hópnum rétt eins og nemandinn að vestan og austan, og nemandinn úr félagslega illa stöddu fjölskyldunni og vel stöddu, eða fjársterku fjölskyldunni o.s.frv. 

Dagbjört Ásgeirsdóttir, 2.9.2007 kl. 21:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband