Og hvar eiga skólastjórnendur að finna peningana?

Hvernig á svo að fara að þessu? Hvaðan á að taka peningana? Hvað á að hætta við að gera, endurnýja, framkvæma til að fjármagna TV-einingarnar? Og hvað með starfsfólk sem tilheyrir öðrum stéttarfélögum en FL? Skólastjórar eiga þess kost á að sækja um TV-greiðslur fyrir leikskólakennara skv. fylgiskjali III í núgildandi kjarasamningi. En hvað með hina? Það er verið að tala um greiðslur vegna álags, og álag leggst á fleiri heldur en leikskólakennara. Í leikskólum starfa margir þroskaþjálfarar, fólk með ýmsa menntun sem tilheyrir ýmsum öðrum stéttarfélögum en KÍ, hvað á að greiða þeim fyrir aukið álag?

Ég er sammála því að það eigi að greiða fólki fyrir álag sem þetta. Fólk þarf einhverja umbun til að halda út. Við erum ekki að tala um álag sem hefur staðið í stuttan tíma, við erum í sumum tilfellum að tala um einhver ár þar sem sama sagan endurtekur sig afur og aftur! Og fólki sem er búið að standa í þessu ár eftir ár óar örugglega við tilhugsuninni um enn annan vetur.

Það er ekki nóg að huga einungis að launamálum leikskólakennara. Það þarf líka að huga að starfsumhverfinu, vinnuaðstöðu o.þ.h. Það eru til fullt af leikskólakennurum sem hafa horfið til annarra starfa vegna þess að þeir voru þreyttir. Því þó að það sé skemmtilegt og mjög gefandi að starfa í leikskóla þá er það erfitt. Það er erill í umhverfinu og oft hávaði. Og langmestan hluta starfsins má flokka undir samskipti. Samskipti við börn, foreldra, samstarfsfólk, utanaðkomandi sérfræðinga o.fl. o.fl. Þessi samskipti eru mjög krefjandi og oft ansi erfið. Og þegar heim er komið eftir að hafa sinnt börnum, hlustað á þau, huggað þau, hlegið með þeim, leikið, sungið, agað, vilja margir leikskólakennarar einungis ró, frið og umfram allt þögn.  Ég veit að margir skólastjórnendur hafa spurt sig hvað þeir geta gert til að laða til sín fagfólk og í sumum skólum og sveitarfélögum hefur mikið verið gert, eins og t.d. hvað varðar hávaðamengun.

kv. Dagbjört

(ps. fyrir þá sem ekki vita þá er ég og starfa sem leikskólakennari) 


mbl.is Ekki um að ræða tímabundna launahækkun allra leikskólakennara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Makrílslóð

Nú bý ég ekki lengur við Hjarðarslóð, heldur við Makrílslóð. Ekki það að skilja að ég sé flutt, heldur er mikil hátíð að ganga í garð. Fiskidagurinn Mikli. Allar götur hér á Dalvík hafa öðlast nýtt heiti, og öll eru þau tengd fiskum á einn eða annan hátt. Bærinn er líka allur orðinn ótrúlega fínn, allir sem vettlingi geta valdið eru á fullu að pússa og gera fínt í kringum húsin sín, mála, skreyta og kveikja á jólaljósunum sem að sjálfsögðu eru sannkölluð skrautljós núna! Þegar gengið er um bæinn má einnig sjá uppbúna 'sjókalla', gínur sem íbúar bæjarins eru búnir að útbúa sér og klæða upp í sjógalla. Sumir þessara sjóara eru á veiðum, aðrir sitja út við götukannt með flösku sér í hönd. 

Það er einnig greinilegt að margir ætla að leggja leið sína hingað þessa helgi. Bærinn er að fyllast af fólki!!! Hvert sem litir er má sjá fellihýsi, hjólhýsi, tjaldvagna og meira að segja gömlu góðu tjöldin!!! Og það sem skemmtilegast er, hvert sem litið er má sjá fólk, heimamenn sem aðkomufólk, og allir eru brosandi Smile Það yljar manni um hjartað og maður getur ekki annað en hrifist með.

Í kvöld sem í gærkveldi hef ég verið að gera tilraun, baka rúgbrauð! Hef svo sem gert það áður en það eru mörg ár síðan. Málið er að móðir mín hefur alltaf bakað brúgbrauð og gefið til Fiskidagsins (sem sé allir bæjarbúar leggjast á eitt til að gera góða hátíð). Svo vill til núna að hún getur ekki komist í að baka, svo þá er ekkert annað að gera en að redda málunum og skella í nokkrar mjólkurfernur og vona að útkoman verði voða góð Grin

 Með von um að sjá sem flesta,

                                  Dagbjört
 


Fjölskyldur

Það hefur verið ótrúlega mikið að gera í sumar hjá mér. Tíminn hefur farið í allt þetta 'hitt' sem ég á í raun ekki að vera að gera. S.s. ekki í ritgerðarsmíð! En stundum er það svo að hlutir gerast í kringum mann sem eru bæði mikilvægir og nauðsynlegir og fara því í forgang og fylla tíma manns. En nú er ritgerðin mín, sem bæði er mikilvæg og nauðsynleg, farin hreint og beint að 'öskra á mig', öll viðvörunar ljós eru farin að blikka og nú þarf hún að vera í algerum forgangi. En þá er aðeins eitt vandamál ... sumarfríið er á enda......... Þessar fjórar dýrmætu vikur sem áttu að nýtast aðeins í eitt verkefni og ekkert annað eru á enda.  Ekki misskilja mig og halda að ég sé að kvarta, ef þessar vikur myndu endurtaka sig þá myndi ég litlu breyta í forgangsröðinni. Fjölskyldan gengur fyrir og þannig á það að vera. Það að eiga fjölskyldu er eitthvað sem er dýrmætt, maður finnur það best þegar maður á bágt og erfitt. En í fjölskyldu-pólítíkin virkar á tvo vegu (allavega). Maður tekur við OG gefur einnig Smile Og þannig á það að vera. 

Bestu kveðjur úr góða veðrinu á Dalvík, 


Sjálfsagi og einbeiting...

Ég hef verið eitthvað léleg við að blogga undanfarið. Get svo sem sagt að það hafi verið mikið að gera, veikindi, börn, útreiðar, vinna o.s.frv. En það tekur nú samt ekki langan tíma að pikka nokkrar línur. En mér finnst ég þurfi samt að hafa eitthvað til að blogga um, get ekki bara bloggað út í loftið (eins og ég er að gera núna reyndar). Nú ástæðan fyrir því að ég virðist geta það í þetta sinn er sennilega sú að ég á að vera að læra! Málið er nefnilega að ég er komin í sumarfrí og í allan vetur og nú í sumar hef ég sagt að sumarfríið skuli verða nýtt til að vinna að meistararitgerðinni. Og nú er komið að því og mikið ofsalega er þá auðvelt að finna sér allt annað að gera...... Woundering Þannig að ef þið lesendur góðir getið sent mér góða strauma um sjálfsaga og einbeitningu þá væri það vel þegið!! Því það er einmitt það sem þarf, sjálfsagi og einbeiting. Sérstaklega þegar sumarið virðist allt í einu komið hér á Dalvík og mér stendur til boða að fara í 10 daga hestaferðalag um norð/austur horn landsins, en ég hef ekki látið freistast, hef bara tekið þátt í að þjálfa þessa yndislegu hesta undir ferðina, og það hefur verið mjög gaman Grin

Sumarkveðjur,

                Dagbjört


Hvaða kona hefur þörf fyrir karlmann...

... þegar hún getur valið sér ljúffengt súkkulaði og dót úr dótakassanum? Nú og ef henni langar í barn getur hún skroppið yfir hafið og heimsótt 'storkinn' Whistling    Þannig að, það er engin þörf fyrir þessar elskur nema þá einna helst til að elda eitthvað ljúffengt    Halo

               Dagbjört 


mbl.is Breskar konur kjósa súkkulaði fram yfir kynlíf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Equestrian Martial Arts

SverðabardagiHver myndi ekki vilja klæða sig upp í alvöru brynju, setja hjálm á höfuð og þeysast um á hestbaki með boga, sverð eða spjót og berjast líkt og riddar gerðu forðum daga?! Sennilega draumur allra drengja og já, stúlkna líka . Og ekki væri það leiðinlegt fyrir okkur fullorðna fólkið heldur. Við gætum látið sem við felldum mann og annan, gamla kærasta eða kærustur og leiðinlega nágranna.  Ég væri sko alveg til í það! Örugglega heilmikið 'kick' að fá út úr því    Whistling

Ég hef sem sé verið dugleg að fara á hestbak undanfarið. Frábær hreyfing og alveg ótrúlegt hve marga vöðva maður uppgötvar sem eru annars ónotaðir. Fyrir utan frábæra reiðskjóta hef ég haft góðan félagsskap. Chris Kovach hefur riðið út með mér undanfarnar tvær vikur, en hann er kanadískur hestamaður sem kennir einmitt reiðmennsku-bardagalist sem hann kallar Equestrian Martial Arts. Á myndinni hér að ofan má sjá Chris heima í Kanada við æfingar með sverð. Það er gaman að skoða heimasíðuna hans, en þar má sjá fleiri myndir og fræðast um hvað liggur að baki. 

Á morgun er svo fyrirhugað að ríða upp á Böggvistaðardal hér fyrir ofan Dalvík. Aldrei að vita hvort ég læri ekki einhver nytsamleg brögð til að klekja á hugsanlegum andstæðingum.   Cool

Dagbjört 


Finnst þér stundum erfitt að skilja konur???

Everything men know about womenHvað vita karlmenn um konur? Bókin Everything Men Know about Women hefur svörin sem nýtast bæði körlum og konum.  Nýtast körlum til að skilja konur betur og átta sig á því hvernig best er að nálgast þær og umgangast. Og nýtast ekki síður konum til að skilja og átta sig á hvernig karlar hugsa um konur.

Höfundurinn, Dr. Alan Francis, tekur á hinum ýmsu klemmum (dilemmas) sem karlmenn velta fyrir sér. Hvernig best sé að vingast við kvenfólk, rómantík og kvenfólk, nánd og kvenfólk, að skuldbindast kvenfólki og síðast en ekki síst; hvernig best sé að fullnægja kvenfólki. 

Dr. Francis byggir bókina á áralöngum rannsóknum þar sem hann hefur talað við fjöldan allan af karlmönnum úr öllum þjóðfélagsstigum. 

Ég mæli með bókinni og eins og áður segir tel ég hana nýtast báðum kynjum. Góð bók til að fletta upp í og finna svörin fyrir hinum ýmsu flækjum eða hindrunum sem fólk lendir í. 

Dagbjört 


Zinc-dropar, rítalín og ADHD

'Þetta hefur ekkert verið rannsakað, ég veit bara að þetta virkar'. Sagði læknirinn við mig þegar ég sat hálf dofin í stólnum inni á læknastofunni að ræða hegðun sonar míns, rítalín og svefnleysi. Ég horfði einbeitt á hann og hugsaði margoft með sjálfri mér: 'Dagbjört, þú ert ekki hjá grasalækni eða hómópata, þú ert hjá heimilislækninum, á heilsugæslunni!' (Ég vil taka fram að ég ber mikla virðingu bæði fyrir grasalæknum og hómópötum).

'Þú gefur honum bara fimm dropa út í ávaxtasafa á hverjum degi sem verður til þess að hann getur hætt á rítalíninu eftir einhverja daga eða vikur'. Ég ætlaði nú ekki alveg að trúa því sem ég heyrði, jánkaði bara og hugsaði með mér að ég hefði nú engu að tapa - allt væri betra en núverandi ástand.

'Já og takt þú bara líka dropana, þeir hressa þig bara við því þú ert ekkert ofvirk', bætti læknirinn við. Og ég átti að taka 10 dropa út í ávaxtasafa. Hmm, enn þurfti ég að minna mig á hvar ég væri stödd.

Á heimili mínu ríkti stríðsástand. Sonur minn (sem er með greininguna ADHD + mótþróaþrjóskuröskun) hafði fengið stærri skammt af Rítalín-Uno töflunum þar sem hann hafði jú stækkað ansi mikið þessi tvö ár sem hann hafði verið á þeim. Lyfin höfðu virkað mjög vel, hegðunin hafði batnað, einbeitingin betri heima og í skóla, dagleg tilvera fjölskyldunnar hafði komist í eðlilegt horf. En þegar skammturinn var aukinn gat drengurinn ekki sofið - aukaverkanir. Og eftir nokkra mánuði með alltof litlum svefni var ástandið orðið verulega alvarlegt.

Ég gerði eins og læknirinn sagði, hafði jú engu að tapa, var aftur komin út í horn. U.þ.b. viku eftir að ég byrjaði að gefa drengnum Zinc-dropana var Rítalín-Uno skammturinn minnkaður um 1/3. Um viku eftir það alveg hætt og hann hefur ekki byrjað aftur á þeim þegar um tveir mánuðir eru liðnir.

Drengurinn er glaðari, félagslega virkari, sefur mun betur og lengur, hefur meiri matarlyst og hann virðist geta einbeitt sér í skólanum. Sem sé, hegðunin er ekki eins og fyrir Rítalín-Uno eða þegar hann einhverra hluta vegna ekki hafði tekið lyfin sín. Hún er mun betri og einnig betri heldur en með Rítalíni-Uno.

Ég er alls ekki að tala á móti Rítalíni, þau lyf hafa hjálpað drengnum mikið, en þau voru einfaldlega ekki að virka lengur á jákvæðan hátt. Og þó það hljómi ótrúlega, þá hafa Zinc-droparnir einhver þau áhrif sem leiða til betri hegðunar og betri líðan. Hvað þetta fæðubótarefni gerir gat læknirinn ekki útskýrt fyrir mér og hvað þá ég. Eina sem ég get sagt er það sama og hann: 'Ég veit bara að þetta virkar'.

 Dagbjört


Daggæslubörn - hvað þýðir það?

Það er leiðinlegt að lesa það þegar fréttamenn fara ekki með rétt mál. Sennilega af fávisku, nú eða að einhver notaði ákveðin hugtök í þeirra eyru sem þeir síðan nota án þess að vita betur. Hér er um að ræða frétt um spennandi verkefni sem er að fara af stað í skólamálum í Mosfellsbæ. Krikaskóli verður fyrir börn frá eins árs aldri til 10 ára (4. bekk) segir í fréttinni. En fréttamaðurinn Steinþór Guðbjartsson talar um daggæslubörn, þ.e. börn milli eins og tveggja ára. Þessi sömu börn virðist hann vísa í með titli fréttarinnar ungabörn fara í skóla. Einhverra hluta vegna hefði ég haldið að ungabörn séu innan við eins árs aldur.

Það er ekkert sem heitir daggæsla innan skólakerfisins! Í Aðalnámskrá leikskóla (1999) er hvergi minnst á orðið daggæslubörn né heldur orðið daggæsla. Það er nefnilega þannig að leikskólar eru fyrir leikskólabörn. Börn hafa rétt á því að hefja leikskólagöngu sína eftir að fæðingarorlofi líkur. Og verða þá nemendur í leikskóla.

Dagbjört


mbl.is Ungabörn fara í skóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin týnda kynslóð innflytjenda.

Í dag hef ég verið að glugga í skýrsluna: Perceptions of Discrimination and Islamophobia (EUMC 2006) sem er viðtalsrannsókn. Ég er nú ekki búin að renna í gegnum hana alla, en það vakti athygli mína að viðmælendur tala m.a. um börn innflytjenda (börn sem fædd eru í upprunalandinu) sem hina týndu kynslóð (lost generation). Að þessir einstaklingar hafi ekki náð að aðlagast nýja samfélaginu, séu ekki viðurkenndir né heldur tilheyri þeir sínu gamla samfélagi. Þeir hafi jafnvel tapað móðurmáli sínu en kunni samt sem áður ekki tungumál hins nýja samfélags.

Getur verið að þetta sé á leið að gerast á Íslandi með þessa kynslóð? Þ.e. börn innflytjenda sem fædd eru í upprunalandinu? Mín fyrsta hugsun er að svo sé ekki, að skólakerfið sjái til þess. En hvað um þá einstaklinga sem koma hingað sem unglingar, halda ekki áfram í námi eftir skyldunámið og ná e.t.v. ekki tökum á því að tala og skilja íslensku svo vel sé. Getur verið að til sé týndur hópur? 

Dagbjört 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband