Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
17.2.2008 | 14:46
Til hamingju Kosovo-albanir!
Ég gleðst yfir þessari frétt og óska þess að íbúar Kosovo geti lifað í sátt og samlindi í framtíðinni. Það er kominn tími til að Kosovo-albanir geti borið höfuðið hátt og verið stoltir án þess að vera undir aðra komnir, hvort sem það eru Serbar eða Tyrkir.
Dagbjört
Kósóvó lýsir yfir sjálfstæði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
1.10.2007 | 21:05
Hver segir að Íslendingar séu ekki rasistar?!?!
Já nú er ekki von að ég spyrji. Samkvæmt fréttunum í kvöld á RÚV vilja Íslendingar aðeins svið af hvítum sauðum Leggja golsótta sauði, mórauða, ja hvað þá svarta sauði ekki sér til munns
Getur verið að þarna birtist hið innsta eðli Íslendinga? Að í raun og veru séum við upp til hópa fordómafull Reyndar þegar ég hugsa um blessaðar kindurnar þótti mér þær golsótta alltaf svo ofsalega flottar, ætli ég myndi ekki velja þær, þ.e. ef ég gæti vinsað þær úr í fristinum út í búð
Kv. Dagbjört
28.9.2007 | 23:07
Útlendingar
Fólk hefur margvíslegar skoðanir á útlendingum. Sumir eru jákvæðir, aðrir neikvæðir og enn aðrir - ja, þeim er alveg sama eða hugsa ekki út í útlendingapólítíkina. Hér á blogginu eru alveg ótrúlegar umræður um innflytjendur. Fólk skiptist á skoðunum um þau málefni líkt og önnur. En það eru líka miklir fordómar og jafnvel hræðsluáróður sem maður getur rekist á þegar lesnir eru hinir ýmsu pistlar og athugasemdir.
Mörgum finnast alltof margir útlendingar komnir til landsins, og þeir hafa alveg rétt á þeirri skoðun sinni, það sem skiptir kannski máli er hvernig sú skoðun er sett fram. Hvort hún sé meiðandi og særandi eða studd rökum og sett upp á málefnanlegan hátt.
Ég tel að þeir útlendingar sem komið hafa til Íslands undanfarin misseri og ár auðgi menningu landsins. Aftur á móti getur vel verið að heldur margir hafi komið til landsins á stuttum tíma. Svo er spurningin hvernig við vinnum úr málunum (ég vil ekki segja 'vandanum', en vandinn getur vissulega myndast ef ekkert er að gert). Ætlum við að skapa menningarlega stéttskipt þjóðfélag (t.a.m. þar sem asískar eða a.-evrópskar konur þrífa heimili okkar 'Íslendinganna') eða ætlum við að nýta þann mikla mannauð sem kominn er til landsins? T.a.m. er hluti af því fólki sem starfar við láglaunastörf (sem Íslendingar vilja ekki líta við) með iðnmenntun eða menntun á háskólastigi. Þetta er menntunarlegur auður sem íslenska ríkið hefur ekki þurft að greiða fyrir, en þjóðin getur aftur á móti nýtt sér til framdráttar.
Eigið góða helgi,
Dagbjört
2.9.2007 | 15:09
Viðhorf ungs fólks til innflytjenda
Ég er að grúska í rannsókn á viðhorfi ungs fólks til innflytjenda á Íslandi. Þar er ýmislegt áhugavert að finna fyrir þá sem hafa áhuga á þessum málum yfirleitt. Eitt af því er að hlutfall þeirra nemenda í 9. og 10. bekk grunnskóla sem telja að það séu of margir innflytjendur á Íslandi nánast tvöfaldaðist milli áranna 1997 og 2003, fór úr 24% í 41%. Ég velti fyrir mér hvernig ætli staðan sé í dag? Síðan 2003 hefur erlendum ríkisborgurum fjölgað úr u.þ.b. 3.5% í 6% í árslok 2006. Og þá eru ekki taldir með þeir innflytjendur sem þegar hafa fengið ísl. ríkisborgararétt. Ég hef á tilfinningunni að hlutfall þeirra sem finnast of margir innflytjendur á Íslandi hafi fjölgað ansi mikið frá því 2003.
Stóra spurningin hlítur að vera sú hvað við ætlum að gera í málunum? Einfalt að spyrja, en erfitt að svara. Eitt af því sem mér finnst er að það er allt of mikið um neikvæðar fréttir af innflytjendum. Hvað með allt það jákvæða sem innflytjendur koma með sér. Það er svo sem ekki eins og þessi tilhneiging fjölmiðla og fólks yfirleitt snerti einungis innflytjendur. Þetta á t.a.m. líka við um unglinga. Sá hópur er oft dæmdur út frá nokkrum svörtum sauðum í hjörðinni. Einnig held ég að ýmis vinaverkefni geti skilað árangri, þar sem krakkar af íslenskum uppruna eignast vini af erlendum uppruna. Ég sá einhverntíma grein um þess háttar verkefni í Noregi, það er bara stolið úr mér eins og er hvar það var og hvað verkefnið heitir, þannig að ég get ekki bent á það. En allavega, þá var fylgni milli þeirra sem áttu vini af erlendum uppruna og þeirra sem voru jákvæðir gagnvart innflytjendum.
Og af hverju vil ég endilega að krakkar séu jákvæðir gagnvart innflytjendum? Ég held að það vinni gegn fordómum og að krakkar eigi þá auðveldara með að eiga samskipti við aðra krakka sem eiga annan uppruna en íslenskan. Sem síðan getur leitt til þess að þegar þau verða fullorðin að þau geta unnið með fólki af erlendum uppruna. Ég held að það geti sem sé komið í veg fyrir árekstra, etníska klíkumyndun með öllu því sem henni fylgir o.s.frv. Sem sé, þetta snýr allt að samskiptum milli fólks. En ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili, best að halda áfram með ritgerðarskrif
Kv. Dagbjört
12.4.2007 | 16:56
Hin týnda kynslóð innflytjenda.
Í dag hef ég verið að glugga í skýrsluna: Perceptions of Discrimination and Islamophobia (EUMC 2006) sem er viðtalsrannsókn. Ég er nú ekki búin að renna í gegnum hana alla, en það vakti athygli mína að viðmælendur tala m.a. um börn innflytjenda (börn sem fædd eru í upprunalandinu) sem hina týndu kynslóð (lost generation). Að þessir einstaklingar hafi ekki náð að aðlagast nýja samfélaginu, séu ekki viðurkenndir né heldur tilheyri þeir sínu gamla samfélagi. Þeir hafi jafnvel tapað móðurmáli sínu en kunni samt sem áður ekki tungumál hins nýja samfélags.
Getur verið að þetta sé á leið að gerast á Íslandi með þessa kynslóð? Þ.e. börn innflytjenda sem fædd eru í upprunalandinu? Mín fyrsta hugsun er að svo sé ekki, að skólakerfið sjái til þess. En hvað um þá einstaklinga sem koma hingað sem unglingar, halda ekki áfram í námi eftir skyldunámið og ná e.t.v. ekki tökum á því að tala og skilja íslensku svo vel sé. Getur verið að til sé týndur hópur?
Dagbjört
12.4.2007 | 16:20
Nýbúaútvarp, af hinu góða.
Frábært framtak. Það er einmitt á þennan hátt sem hægt er að auðvelda innflytjendum aðlögun að íslensku samfélagi. Meðan þú veist ekki hvað er í boði, hvað er að gerast, til hvers er ætlast af þér er mjög erfitt að bregðast við því, tekur allavega ansi langan tíma. Vonandi verða þær upplýsingar sem fram koma í Nýbúaútvarpinu til þess að innflytjendur þurfi ekki að reka sig á eins marga veggi og geti tekið meira þátt í samfélaginu. Nú er bara að bíða þess að útsendingar nái til allra landsmanna!
Dagbjört
Nýbúaútvarp mun nást á öllu höfuðborgarsvæðinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.4.2007 | 20:15
Ert þú fordómafull/ur??
Hvað eru fordómar? Á einfaldan hátt má segja að svarið felist í sjálfu orðinu for - dómur, það að dæma fyrirfram, dæma án þess að kynna sér viðkomandi einstakling eða aðstæður. En ætli þú lesandi hafir fordóma í garð einhverra? Ég held að flestir svari þessari spurningu neitandi, allavega heyrir maður fólk gjarna segja: Ég er ekki fordómafull/ur en .... Nú eða að fólk segir: Ég er ekki rasisti en...
Hvað þýðir þetta litla orð 'en' í þessu tilfelli? Það getur m.a. þýtt: Útlendingar eru fínir, bara að ég þurfi ekki að eiga samskipti við þá.
Íslendingar hafa löngum talið sig vera fordæmalausa þjóð. Það er bara einhvernveginn þannig að við verðum ekki vör við eigin fordóma fyrr en á reynir. Og nú reynir á. Algengastir á vesturlöndum í dag eru svokallaðir hversdagsfordómar, þ.e. duldir fordómar. Þeir lýsa sér í pirringi, óvingjarnlegri framkomu, tortryggni, uppnefnum, háði, hroka, afskiptaleysi og verri þjónustu. Kannast ekki einhver við að hafa annað hvort sagt eða heyrt fólk segja: Ég fékk mér 'tæju' til að þrífa hjá mér. Eða: Það er svo mikið af Pólverjum þarna að ég nenni ekki þangað inn. Það mætti telja upp mörg dæmi um það sem fólk segir, allt frá því að kvarta undan of mikið af útlendingum út í næstu matvöruverslun til þess að hræðast það að börn þeirra fái lakari skólaþjónstu vegna þess hve margir útlendir nemendur séu í skólanum.
Þó að ég beini sjónum mínum aðallega að fordómum í garð fólks af erlendum uppruna þá beinast þeir að mörgum öðrum minnihlutahópum (beinast einnig í báðar áttir, en það skrifa ég um seinna). Fyrr í kvöld horfði ég á fréttir RUV og þá var verið að fjalla um málefni samkynhneigðra í Færeyjum. Það var tekið viðtal við hjón á förnum vegi og þau spurð um skoðun þeirra. Frúin varð fyrir svörum á meðan eiginmaðurinn nikkaði með góðlátlegt bros á vörum. Hún sagði sem svo að þau væru mótfallin tilteknum lögum sem spurt var um (sem að mig minnir eru til að styrkja/verja stöðu minnihlutahópa í Færeyjum, m.a. homma og lesbía) af því að þau væru Kristin (með áherslu)... og svo brosti hún sínu blíðasta og bætti við að þau samþykktu samt sem áður alveg þetta fólk sem manneskjur....... Sem sé, þú ert manneskja en átt ekki að fá sömu réttindi og ég, ekki eins rétthá.
Nóg um þetta í bili, væri gaman að fá að heyra skoðanir ykkar, dæmisögur eða innlegg.
Dagbjört
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2007 | 23:14
Skóli fyrir börn erlendra starfsmanna, fyrir hvern er þetta hugsað??
Fyrir hvern væri skóli sem þessi? Allt námsefni á ensku, börn erlendra starfsmanna íslenskra fyrirtækja... ? Hvaða íslenskra fyrirtækja? Er verið að tala um fyrirtæki á borð við Íslenska erfðagreiningu, íslensk fiskvinnslufyrirtæki, verslanir, byggingafyrirtæki...? Erum við að tala um skólagjöld, þ.e. yrði þetta einkaskóli? Og væri þetta besta leiðin fyrir börnin??
Í fyrstu hljómaði þetta ágætlega í mín eyru, en svo vöknuðu allar þessar spurningar og fleiri til. Af hverju mega nemendurnir ekki ganga í almenna íslenska skóla, nú eða íslenska einkaskóla? Af hverju ekki að leggja þá fjármuni sem færu í þennan skóla í að bæta enn frekar kennslu og aðbúnað nemenda af erlendum uppruna? Og síðast en ekki síst, af hverju mega börnin ekki kynnast íslenskum sem útlenskum nemendum, læra íslensku og jafnvel ganga í hverfisskólann sinn? Ef þessi leið yrði farin, væri þá ekki verið að ýta undir aðskilnað í stað aðlögunnar??? Getur verið að þessi hugmynd hafi vaknað til að bæta þjónustu við fullorðið fólk sem gegnir störfum í sendiráðum og öðrum háttsettum störum?
Það sem fram kemur í þessari frétt stríðir gegn öllu því sem ég hef verið að kynna mér undanfarin misseri varðar félagslega aðlögun fólks af erlendum uppruna. Það væri gaman að heyra meira um þessa hugmynd, hvernig þetta er í raun hugsað, eða hvort þetta sé yfir höfuð bara hugmynd sem óvíst er hvort verði að.
Dagbjört
Hugmyndir um alþjóðlegan skóla á Íslandi þar sem námsefni yrði á ensku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.3.2007 | 16:21
Hvernig ætlum við að bregðast við breyttu samfélagsmynstri?
Okkur fjölgar og fjölgar. Nú getur maður vænst þess þegar farið er út í búð að heyra fólk tala pólsku, albönsku, tælensku, einhver af hinum mörgu tungumálum Filippseyjinga, serbnesku-króatísku.... og svo lengi mætti telja. Þetta er ótrúlega mikil breyting á afar stuttum tíma. Málið er bara, hvað ætlum við að gera við allar þessar breytingar? Þ.e. hvernig ætlum við að bregðast við þeim? Samfélag okkar er orðið fjölmenningarlegt hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Og ég vil meina að það þýðir lítið að stinga höfðinu í sandinn og vera á móti öllu og vilja fara til baka til þess samfélagsmynsturs sem var. Það er ekki lengur, því verður ekki breytt. En hvernig ætlum við að vinna úr öllum þessum breytingum til þess að samfélag okkar dafni enn betur og allir, af hvaða uppruna sem þeir eru, nái að lifa saman í sátt og samlyndi? Mér þætti gaman að fá comment frá ykkur sem þetta lesa, hvað ykkur finnst, hvort þið hafið einhverjar hugmyndir o.s.frv.
Dagbjört
Fólksfjölgun á Íslandi með því mesta sem mælst hefur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |